Lygin er ekki andstæða sannleikans heldur hluti af honum (Gusta Aagren)
Hvalur hefur tekið sér bólfestu í húsi við höfnina. Hann tælir til sín gesti og gangandi með seyðandi söng sínum. Risa kræklingur er bundin við bryggju og fljótandi hljóðfæri liggur að höfninni og er dregið af villtum sæfákum. Þegar komið er inn í gin hvalsins hefst hið andlega ferðalag hafið um iður hvalsins, sem er lyginni líkust.
Fantastar þýðir á Íslensku athafnaskáld eða þeir sem lifa jafnt í lyginni og raunveruleikanum. Fantastinn á rætur sínar að rekja til Íslands, Grænlands og Færeyja og glæðir líf samferðamanna sinna með góðum sögum og draumum og einstaka vitleysu.
Sagðar eru sögur af Fantöstum eyjanna þriggja, þau verða kynnt til leiks og staða þeirra í dag verður krufin af sjáendum.
Margrét Vilhjálmsdóttir leikkona leiðir hóp listamanna frá Grænlandi, Færeyjum, Íslandi og Danmörku. sem vinna saman að þessum listviðburði sem byggir á hugmyndum og ranghugmyndum þjóðanna og misskilinni sjálfsímynd þeirra. Sögur verða endurunnar og samplaðar, og heimildir skáldaðar.